Primo Levi, Ef þetta er maður (Se questo è un uomo, 1947), Forlagið, 2022.
Primo Levi var ítalskur gyðingur og efnafræðingur sem, 25 ára gamall, lenti í fangabúðum nasista á Auschwitz árið 1944. Þegar rússneskir hermenn komu og frelsuðu fangana var hann nær dauða en lífi.
Bók hans, Se questo è un uomo, kom út árið 1947 og hefur að geyma einn fyrsta og mikilvægasta vitnisburðinn um þær ómennsku aðstæður sem fólk bjó við í fangabúðunum. Frásögnin er látlaus, blátt áfram og nákvæm, sem gefur henni ekki síst áhrifamátt sinn og trúverðugleika. Lesendur sjá hvað menn eru reiðubúnir til að gera til að halda lífi – en líka kærleiksverk og mennsku, þrátt fyrir allt.
Se questo è un uomo kom út undir heitinu Ef þetta er maður í íslenskri þýðingu Magnúsar H. Guðjónssonar hjá Forlaginu árið 2022. Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku við Háskóla Íslands ritaði eftirmála.
Þann 27. janúar nk., á alþjóðlegum minningardegi Helfararinnar, verður þetta fræga verk Levis kynnt. Stefano Rosatti mun segja frá höfundinum og tilurð verksins. Þýðandinn fjallar þar næst um þýðinguna og les valda kafla úr verkinu.
Viðburðurinn er haldinn af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands í samstarfi við ítölskudeild Háskóla Íslands og Istituto Italiano di Cultura di Oslo.
Staður: Auðarsalur
For more information, see the webpage of the University of Iceland here